Ferðskrifstofan Urval Utsyn

  MALLORCA

  ÆVINTÝRAEYJAN KOMIN AFTUR Í SÖLU!

  Mallorca hefur fyrir löngu stimplað sig inn sem eitthvað meira en bara sólaströnd. Þar getur þú verið alvöru ferðamaður, farið í verslunarmiðstöðvar, vatnsrennibrautagarða eða nýtt þér "tveir fyrir einn" tilboð á barnum. Svo er hægt að skoða náttúrufegurðina í fjöllunum, afskekktar strendur og smábæi heimamanna. Gaman er að keyra um sveitirnar, sjá bændur að störfum og drekka nýkreistan ávaxtasafa í litlum kofa á hæsta tindi. Margir listamenn hafa einmitt nýtt sér þessa kyrrð og dvalið fjarri stórborgum sér til heilsubótar. Mallorca er góður staður fyrir alla.

  EINSTÖK EYJA

  Mallorca er eyja líkt og Ísland og það er kannski þess vegna sem okkur líkar svona vel við innfædda. Viðskiptavinir Úrvals Útsýnar dvelja á Playa de Palma ströndinni á flottum hótelum en ströndin er einungis í 10 mínútna akstursfjarlægð frá heimsborginni Palma með öllum sínum frábæru verslunum, veitingastöðum og glaðværu götulífi. Palma er af mörgum talin ein fallegasta og hreinlegasta borgin við Miðjarðarhafið.

  PLAYA DE PALMA

  Við Palma flóann, örskammt austan við höfuðborgina Palma er Playa de Palma,fullkomin umgjörð um ógleymanlegt sumarfrí. Playa de Palma sameinar alla bestu kosti sólarstaða á einstakan hátt.  Ströndin er sú lengsta á Mallorca og verslanir,veitingahús og kaffihús standa í röðum við strandgötuna og aðalgötu bæjarins. 

  Meðfram ströndinni liggur fallegur hellulagður göngustígur og mjög auðvelt er að hjóla og ganga á þessu svæði þar sem allt er svo slétt. Strandgatan iðar af mannlífi  mest allan sólarhringinn.  Kvöld og næturlífið er fjölbreytt og fjörugt.

  Playa de Palma  er sambyggð El Arenal og er þetta svæði samfelldur og litskrúðugur skemmtana og afþreyingabær, hvort heldur sem menn vilja skemmta sér á þýsku kránum við Callae de la Cerveza (Bjórstrætið) fara á diskótek eða njóta sólarlagsins á einhverjum af hinum fjölmörgu útiveitingastöðum og börum meðfram ströndinni.  Við aðalgötuna og strandgötuna eru dansstaðir með lifandi tónlist. 

  Í El Arenal er vatnsleikjagarðurinn Aquacity,sá stærsti á Mallorca.  Í aðeins 10 mínútna akstursfjarlægð er heimsborgin Palma með sínu glaðværa götulífi, frábærum veitingastöðum og verslunum. Auðvelt er að komast til Palma með strætisvögnum eða leigubílum
  .

  NÓG AÐ GERA

  Það þarf engum að leiðast á Mallorca. Þar eru frábærar sandstrendur sem eru sérleaga hreinar og öll aðstaða og þjónusta er til fyrirmyndar. Einnig eru fjölbreyttir veitinga- og skemmtistaðir og mörg góð diskótek. Hægt er að finna fína dansstaði og dilla sér langt fram eftir nóttu. Nokkrar Go-Kart brautir eru á eyjunni og hægt er að skella sér í golf og tennis ef svo ber undir.

  VERSLUNARPARARDÍS

  Mallorca er sannkölluð verslunarparadís og verðlag er hagstætt. Hægt er að mæla með Palma sem einni hagstæðustu verslunarborg álfunnar. Í borginni eru verslanir á heimsmælikvarða m.a fataverslanir og stórverslanir eins og C&A, El Corte Ingles, Zara, Mango, H&M og verslunarmiðstöð í Porto Pi.