Bókaðu hér

Hvernig ferð viltu?

Tyrkland

Afþreying

Í boði eru alls konar vatnaíþróttir, svo sem sjóskíði, seglbretti, köfun, siglingar, hjólabátar, bananabátar, fallhlífar og sjókettir. Þess utan er hægt að fara í hestatúra, flúðasiglingar eða jeppasafarí. Einnig eru alls konar leiktæki fyrir börn og fullorðna á ströndinni.

Akstur

Akstur til og frá flugvelli erlendis er valkvæð þjónusta. Þarf að bóka og greiða fyrir brottför frá Íslandi.

Akstur frá flugvelli

Akstur frá flugvelli til Bodrum: 40 min
Akstur frá flugvelli til Marmaris: u.þ.b. 2 klst. 

Bílaleiga

Framvísa þarf gildu íslensku vegabréfi. Lágmarksaldur leigutaka er 23 ár.

Ferðatilhögun

Flogið er í beinu leiguflugi til Tyrklands og lent á flugvellinum í Milas Bodrum. Flugið tekur um 6 klst.

Gjaldmiðill

Tyrknesk líra. Gengi: 1 líra eru liðlega 23 krónur (mars 2019). Einnig er hægt að nota evrur og dollara.

Rafmagn

220-240 volt

Samgöngur

Flestir fara fótgangandi um bæinn. Ódýrt og þægilegt er að taka smávagna (dolmus) og leigubílar ódýrir. Hægt er að fara til næstu bæja svo sem Icmeler og Turunc með dolmus og leigubát (taxiboat).

Tímamismunur

Bætið 3 klst. við íslenskan tíma.

Fagurt og framandi

Istock 850974388

Tyrkland hefur slegið í gegn hjá Íslendingum líkt og öðrum íbúum Evrópu. Árum saman hafa Norðurlandabúar streymt suður til Tyrklands til þess að njóta sólar og skemmtunar á fegurstu ströndum Miðjarðarhafsins.

Verslun

Istock 496232398

Verðlag er hagstætt í Tyrklandi enda nota Tyrkir ennþá eigin gjaldmiðil og hafa ekki tekið upp evruna. Á útimörkuðum og á basarnum er hægt að gera góð kaup á merkjavöru eða góðum eftirlíkingum á enn betra verði. Teppasalarnir eru á hverju strái og erfitt getur verið að standast gullfalleg, handofin teppi sem Tyrkir eru frægir fyrir. Fatnaður úr leðri og skinnum er fallega hannaður, mjög vandaður og á góðu verði. Verð á gulli og silfri er einkar hagstætt og úrvalið mikið. Víða er fast verð, en það er enn þjóðarsiður að prútta á basarnum og markaðnum. Full ástæða er til að pakka létt, það kemur enginn tómhentur frá Tyrklandi.

Njóttu þess besta

Istock 826493618

Gerðu sumarfrí fjölskyldunnar að einstakri upplifun með því að njóta Tyrklands. Þeir sem einu sinni koma í frí til Tyrklands sækja þangað aftur og aftur í frí. Það er vegna þess að landið er fallegt, fólkið vingjarnlegt og verðlag  hvergi hagstæðara. Tyrkland er fyrir þá sem vilja njóta alls þess besta sem sólarstrendur bjóða uppá. 

Marmaris

Bryggja

Marmaris er líflegur og fallegur strandbær við Miðjarðarhafið þar sem túrkísblátt hafið kallast á við skógi vaxnar hlíðar. Hjarta Marmaris er snekkjuhöfnin Yesil Marina, einhver fjölsóttasta skemmtibátahöfn Miðjarðarhafsins. Þar ægir saman fallegum skonnortum, fiskibátum, seglskútum, sportbátum og stórum og glæsilegum lystisnekkjum auk fjölmargra veitingastaða og verslana.

Perla Tyrklands er heitið sem Tyrkir hafa gefið þessum litla bæ við samnefndan flóa. Í Marmaris búa 30 þúsund manns en í einu vetfangi breytist bærinn í einn líflegasta sólarstað Miðjarðarhafsins þegar ferðamenn hvaðan æva úr Evrópu flykkjast þangað allt sumarið og langt fram á haust.

Istock 1010774466 Edited

Marmaris að kvöldlagi er paradís fyrir lífsglaða ferðamenn. Veitingastaðir og barir eru meðfram ströndinni og við höfnina. „Barstrætið“ er 300 m langt. Í fallega uppgerðum húsum eru barir, veitingastaðir og dansstaðir til beggja handa svo langt sem augað eygir. Vestrænt og tyrkneskt rokk ómar út á götu og alls staðar er glaumur og gleði fram á morgun. Barstrætið endar við Yesil Marina og þeir sem kjósa meiri rólegheit geta auðveldlega fundið notalegan veitingastað við höfnina þar sem skúturnar ljóma í roða kvöldsólarinnar.

Þeir Íslendingar sem sótt hafa Tyrki heim síðastliðin ár hafa sannfærst um að Marmaris er einn besti sólarstaður sem völ er á og fara þangað aftur og aftur – því að í Marmaris eru fínar strendur, iðandi mannlíf, ljúffengur matur, og einkar aðlaðandi og gestrisið fólk.

 

Bodrum

Bodrum

Bodrum liggur við vesturströnd Tyrklands og er skemmtilegur og vinsæll strandbær. Í Bodrum má finna marga áhugaverða sögufræga staði og fornar rústir. Enda þótt Bodrum sé fiskimannabær, starfa flestir íbúanna við ferðamannaiðnað.

Veit

Við höfnina er gatan Cumhuriyet Caddesi og þar eru fjölmargar verslanir og barir. 
Á kvöldin er þar líf og fjör, gnægð skemmtistaðam m.a. hinn fræga Halikarnas.

 

Enginn skortur er á ströndum við Bodrum. þær eru mismunandi sem gefur hverjum og einum færi á að finna sandströnd við sitt hæfi. 

Yashi

Yashi ströndin er við höfnina, og þar er góð aðstaða til sól - og sjóbaða því vatnið er kristal tært. Við Yashi ströndina eru veitingastaðir og litlar verslanir. 

Fener ströndin er upplögð fyrir vatnaíþróttir. Þar blæs vindurinn milli Fener strandarinnar og Kos eyjunnar og er einn besti staðurinn fyrir seglbretti og flugdreka. 

Gümbet ströndin er hentug fyrir fjölskyldur. Hún er í 3 km vestur frá Bodum og er um kílómetra löng, með veitingastöðum og börum við strandlengjuna. Ströndin er hrein og sjórinn aðgrunnur, sem hentar vel fyrir krakkana. Einnig er hér að finna skemmtilegar vatnaíþróttir, á borð við bananabáta og vatnaskíði.

Kadikalesi ströndin er róleg og þægileg. Þar eru barir, veitingastaðir og moska. 
Hentar vel ef þú sækist í rólegheit, setjast og lesa bók. Við mælum með sólsetrinu við þessa strönd.

Markaðurinn í Bodrum er skemmtilegur og litríkur. Á þriðjudögum er textíl og fatamarkaður. og föstudögum er matamarkaður. 
Yfir miðbæ Bodrum er hringleikahús, rústir frá hinum gamla gríska bæ Halicanassus. Á sumrin eru þar haldnar skemmtisýningar, með sæti fyrir um 4000 manns. 

 

Içmeler

Icme

Fyrir fáum árum var Içmeler lítið fiskimannaþorp í útjaðri Marmaris og aðeins var hægt að komast þangað sjóleiðis. Í dag er Içmeler einn eftirsóttasti ferðamannastaður Tyrklands vegna legu sinnar við Marmaris-flóann. Síðustu tíu ár hefur uppbygging ferðaþjónustu verið hröð en vel skipulögð þar sem hugsað var fyrir öllu sem hentar ferðamanni nútímans. Veitingastaðir eru víða í bænum og við ströndina og bjóða þeir bæði tyrkneskan og alþjóðlegan mat.

Maturinn er undantekningalítið góður, verðið er hagstætt og þjónusta heimamanna er frábær. Í Içmeler er fullt af góðum verslunum og hinn vikulegi útimarkaður, sá sami og í Marmaris, verður sívinsælli hjá ferðamönnum. Ströndin við Içmeler er einstaklega falleg og hrein og þar bjóðast alls konar leiktæki fyrir allan aldur. Í flæðarmálinu er lítil bryggja og þar leggja að taxi-bátar sem hægt er að nota til að skjótast til Marmaris.

Ics

Gamli bærinn í Içmeler lætur lítið yfir sér en hann er helsta aðdráttarafl ferðamanna sem sækja bæinn heim. Þar býr fólk eins og það hefur gert um aldir með hænur í görðunum og oft má sjá geitahirða reka geitur sínar í hagann. Upp frá bænum eru skógi vaxnar hlíðar með litlum ferskvatnsám en af þeim er nafnið Içmeler dregið. Þetta hreina vatn þykir hafa góð áhrif á heilsu fólks og vera sérlega gott fyrir magaveika.

Içmeler er í 8 km fjarlægð frá Marmaris og það tekur aðeins um tíu mínútur að aka á milli bæjanna. Smávagnar (dolmusar) halda uppi reglulegum ferðum á milli og leigubíla er hægt að fá allan sólarhringinn. Frá Içmeler er líka stutt til Turunc sem er lítill strandbær og tiltölulega ósnortinn af ferðamönnum. Hægt er að komast þangað með smávagni eða leigubíl.